Um okkur

Voffavinir er hundaþjálfun staðsett á Akureyri.

égílit án bakgrÉg, Birta, stend á bak við Voffavini en ég er hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur. Ég útskrifaðist úr hundaþjálfaranámi Heiðrúnar Villu í apríl 2016, með skírteini frá alþjóðlegu hundaþjálfarasamtökunum International Association of Canine Professionals. Ég er samt alls ekki hætt að sækja mér þekkingu hvað varðar hundaþjálfun og mun læra meira í framtíðinni.

Ég hef lengi haft áhuga á hundum og hef gífurlega gaman af því að vera í kringum hunda og eigendur þeirra. Ég hef lengi umgengist hunda í gegnum fjölskyldumeðlimi en eignaðist ekki minn eigin hund fyrr en sumarið 2015. Þá ættleiddi ég hundinn Vin í gegnum Dýrahjálp Íslands. Það má segja að Vinur hafi orðið fyrir valinu sem þjálfunartækifæri þar sem hann var mjög krefjandi hundur sem væri hægt að læra margt af. Hann var að verða 8 ára þegar ég ættleiddi hann en hann hafði farið á yfir 10 heimili áður og var á síðasta séns. Hann hafði flækst á milli heimila, fósturheimila og Heiðrún Villa hafði líka tekið hann í þjálfun til sín fyrir hönd Dýrahjálpar til þess að úrskurða það hvort hann ætti séns á því að vera inni á heimili eða hvort hann væri einfaldlega of erfiður. Heiðrún taldi hann ekki eiga mikla möguleika á að eignast framtíðarheimili með sín vandamál en það var í gegnum hana sem ég fann Vin. Vinur hafði bitið frá sér þegar hann hafði náð einhverju sem hann mátti ekki hafa og þar af leiðandi gat hann ekki verið á heimili með börnum eða óvönum einstaklingum. Ég ákvað að gefa honum séns og það gekk mjög vel, það náðist mikill árangur með Vin á þeim tveim árum sem hann var hjá mér en því miður þurfti hann að fara yfir regnbogabrúna í maí 2017. Mér tókst á þessum tíma að minnka stress verulega og úr honum varð rólegur heimilishundur, þó alls ekki gallalaus og þurfti því oft að vera á varðbergi í þeim sérstökum aðstæðum sem kveiktu á gömlu hegðuninni að verja með kjaftinum. Hann var farinn að treysta betur og var öruggari í erfiðum aðstæðum á heimili okkar. 

DST_6521Vinur kenndi mér rosalega margt í sambandi við stress í hundum og hvernig þarf að nálgast erfiða hunda sem hafa bitið. Ég lærði einnig inn á aðskilnaðarkvíða sem er algengt vandamál hjá hundum í dag. Ég mun alltaf búa að þessari dýrmætu reynslu sem mun vonandi hjálpa öðrum hundum og hundaeigendum í svipuðum aðstæðum.

Í einkatímum hef ég verið að aðstoða hundaeigendur við aðskilnaðarkvíða, gelt, æsing við gestakomu, hælgöngu og ýmislegt fleira sem algengt er hjá hinum almenna heimilishundi.

Ef þú þarft aðstoð með hundinn þinn þá býð ég upp á einkatíma og netráðgjöf eins og er, ásamt námskeiðum með Hundaskóla Norðurlands. Endilega skoðaðu síðuna og hafðu samband ef þú hefur áhuga!