Ertu að hugsa um að fá þér hund?

Það er margt sem þarf að huga að þegar hundur kemur á heimilið enda er það mikil ábyrgð. Hundur er skuldbinding til margra ára og því verður að hugsa sig vel um áður en ákvörðunin er tekin. 

Allir hundar eru fallegir, krúttlegir og æðislegir í alla staði. En þeir eru líka mikil vinna, kosta peninga og tíma sem því miður of margir gera sér ekki grein fyrir. Hér eru lykilspurningar sem gott er að spyrja sig að, áður en lokaákvörðun er tekin. 

– Er örugglega tími fyrir þá hreyfingu sem hundurinn þarfnast? 
Áður en þú færð hundinn á heimilið skaltu athuga hvort það sé tími til þess að sinna þeirri hreyfingu sem hundurinn þarf á að halda. Hver hundur er misjafn eins og við mannfólkið en tegund hundsins getur sagt þér til um það hversu mikilli hreyfingu má reikna með. Skoðaðu orkustig fjölskyldunnar þinnar og veldu þér hund sem passar við ykkur. Sumir hundar þurfa klukkutíma göngutúr á dag og stundum meira eða minna en það. Vertu viss um að það sé alltaf einhver sem er tilbúinn til að fara út með hundinn ef þú getur það ekki sjálf/ur. 

– Er möguleiki hjá heimilisfólki að sinna þörf hundsins út frá tegund eða eðli? 
Hér er átt við það ef hundurinn er t.d. af sleðahundategund, hvort heimilisfólkið hafi tök á því að vinna með það eðli og leyfa hundinum að draga. Þannig mætir fjölskyldan þörfum hundsins og hundinum líður betur heima við. Sumir hundar eru góðir sporhundar og því mætti gera þefæfingar með hundinum inn á milli. Þessi tegundatengda þörf hundsins kemur ekki í stað almennrar hreyfingar þar sem almenn hreyfing er ein af grunnþörfum hundsins.

– Er til staðar næg þekking og áhugi til að sinna þjálfun hundsins?
Það er ekki nóg að velja sér sætan hvolp og vona að hann verði þægur. Hundar eru alveg eins og börn með það að þeir þurfa einhvern til að leiðbeina sér með hvað er rétt og hvað er rangt. Ekki búast við því að hundurinn læri strax á fyrsta degi hvernig á að hegða sér, þú þarft því að vera tilbúinn til þess að sýna honum það rétta og gefa þér nægan tíma í það. Þjálfun hunda er daglegt verkefni, ekki endilega eins og á hverjum degi en alltaf er eitthvað. Yfirleitt eru það hversdagslegir hlutir, eins og að bíða með að borða þangað til eigandi gefur leyfi, eða gera þarfir sínar úti við.

-Ertu í öruggu húsnæði? 
Það eru allt of margir sem lenda í þeim aðstæðum að þurfa að finna nýtt heimili fyrir hundinn sinn vegna þess að hundar eru ekki leyfðir í nýju íbúðinni. Til að koma í veg fyrir það er langbest að vera í eigin húsnæði ef það er í boði. Einnig er mikilvægt að ef þú býrð í fjölbýlishúsi, að fá samþykki annarra íbúa vegna hundsins ef það á við, áður en hundurinn kemur. Það er ekkert leiðinlegra heldur en að vera kominn með nýjan hund og svo fæst ekki samþykki fyrir honum. 

-Er fjárhagurinn nógu góður til að fá bæta við hundi á heimilið?
Það kostar alltaf að kaupa hundamat, fara til dýralæknis og kaupa alls kyns vörur fyrir hundinn sinn. Það þarf að kaupa búr, tauma, beisli, dalla og dót, svo eitthvað sé nefnt. Einnig þarf að tryggja hundinn sinn og fara á hundanámskeið, sem oft getur kostað sitt. Kostnaðurinn er mishár og fer eftir hundinum, hvort hann sé heilsuhraustur eða oft veikur, lítill eða stór. 

-Er einhver til staðar ef hundurinn þarf pössun?
Ef heimilisfólkið ákveður að skella sér í utanlandsferð í 10 daga, er einhver til staðar fyrir ykkur sem er tilbúinn til að passa hundinn? Það er alltaf rosalega þægilegt að þekkja einhvern sem getur verið með hundinn og þá helst á ykkar heimili ef þær aðstæður koma upp að eigendur eru ekki til staðar. Oft getur þetta gerst óvænt, til dæmis geta komið upp alvarleg veikindi og þá þarf að finna pössun. Það er mjög gott að skoða þetta, spyrja fjölskyldumeðlimi og vini hvort þau séu tilbúin til að passa ef til þess kemur. Það er miklu erfiðara að fá pössun fyrir ferfætlingana heldur en börnin. 

-Ertu sjálf/ur tilbúin/n til þess að vera fyrirmynd og leiðtogi hvolpsins? 
Allir hundaeigendur þurfa að vera tilbúnir til þess að vera leiðtogi eða leiðbeinandi hvolpsins til að sýna honum réttu leiðina í þjálfun. Best er að hundaeigandi haldi opnum huga hvað varðar sjálfan sig og hugi að yfirvegun í daglegu lífi til að þjálfunin gangi sem best. Fyrirmyndin þarf einnig að hugsa um það hvaða reglur henti á heimilinu og að allir aðrir á heimilinu framfylgi þessum reglum. 

Þetta er ekki tæmandi listi yfir þau atriði sem þarf að huga að þegar verið er að hugsa um þessa stóru ákvörðun, að bæta við hundi á heimilið. Gott er að spyrja aðra hundaeigendur hvað þeim finnst vera mikilvægt að skoða hvað þessa ákvörðun varðar og fá fleiri álit. Ef þú ert ekki viss hvort þú sért tilbúin/n í hundaeign, er líka sniðugt að prófa að passa hund sem þú þekkir í nokkra daga. Þá fær maður betri hugmynd um hversu mikil vinna það er að eiga hund. Einnig er það sniðugt ef þú ert að spá í ákveðinni tegund, að passa hund af þeirri tegund til að sjá hvort tegundin henti.

Innkall

Það er alltaf gott að eiga hund sem hlýðir innkalli, sérstaklega ef maður lendir í því að hundurinn sleppur óvart út eða týnist. Hér eru nokkrar leiðir til að æfa innkallið með voffanum þínum. 

Innkallið lærist með æfingu og endurtekningu, líkt og aðrar skipanir og hegðanir. Því er alltaf gott að grípa í stuttar æfingar þegar tækifæri gefst. Kíkjum á nokkrar skemmtilegar æfingar sem hægt er að gera með hundinum bæði inni og úti til að styrkja innkallið. 

Fyrsta skrefið í að kenna hundi innkall er í raun mjög einfalt – kalla á hann inni og verðlauna þegar hann kemur. Verðlaunin þurfa ekki endilega að vera nammi heldur geta þau verið klapp eða hrós í orðum. Ef þið eruð mörg á heimili er hægt að búa til leik með því að skiptast á að kalla, verðlauna þegar hundurinn kemur og hafa gaman. Þetta er þrælsniðugt með unga hvolpa því að þeir eru yfirleitt hrifnir af því að leika sér. Það þarf þá bara að passa það að leikurinn standi stutt þannig að hundurinn verði ekki of þreyttur eða missi áhugann, við viljum helst alltaf enda þjálfun í góðu þannig að hundurinn hætti í hrósi og líður vel með sjálfan sig. Það er líka hægt að gera þessa æfingu úti við á afgirtu svæði, t.d. í garðinum.

Annað sem hægt er að gera er að hafa hundinn úti og bundinn í löngu bandi, eða innkallstaumi eins og það er oft kallað. Leyfa hundinum að skoða sig um og helst gleyma sér aðeins í að skoða eitthvað. Svo er kallað á hann og hundurinn fær verðlaun þegar hann kemur. Ef hann hlýðir ekki og heldur áfram að skoða eitthvað, prófaðu þá aftur og notaðu tauminn í leiðinni. Settu pressu á tauminn þegar þú kallar á hann þannig að hann fatti hvað þú vilt, verðlauna svo þegar hann kemur. Ef það gengur ekki þarftu að taka skref aftur á bak og hafa minna svæði á milli þín og hundsins, prófa svo aftur. 

Síðan eru margar hlýðniæfingar sem styrkja innkall. Hér er miðað við að innkallsorðið sem notað er, sé nafn hundsins, eða þá að nota orð sem væri hægt að nota í þessum skipunum líka. Helsta skipunin sem styrkir innkall er bíða skipun, þar sem hundurinn á að bíða t.d. í bælinu sínu þangað til honum er hleypt úr skipun með nafninu sínu. Einnig er hægt að kenna hundinum “auto-sit” eða kenna honum að setjast niður þegar þú stoppar í göngutúr. Það er mjög sniðugt t.d. þegar stoppað er á rauðu ljósi eða þegar þú vilt stoppa og spjalla við einhvern. Þá á hann í rauninni að sitja kyrr þar til honum er hleypt úr skipun með nafninu sínu eða því orði sem þú velur að nota. Þegar hundurinn fer að hlusta betur eftir nafninu sínu styrkir það innkallið því þá hlustar hann betur á þig þegar þú notar í innkallinu. Þetta á líka við það ef þú notar annað orð – þá þarf það bara að vera sama orðið í þessum æfingum eins og í innkallinu sjálfu. 

Mundu að æfingin skapar meistarann – bæði hjá þér og hundinum. Finndu út hvaða leið hentar þínum hundi og æfið ykkur saman.

Bíða

Bíða skipun er það þegar hundurinn er settur á vissan stað, þar sem hann á að vera þar til hann heyrir nafnið sitt. Best er að hann leggist niður til að auðvelda slökun. Helst er þessi staður bæli eða búr, þar sem hann fær að vera í friði og getur slakað á. Honum er ekki hleypt úr skipuninni eða leyft að fara frá þessum tiltekna stað fyrr en nafn hans er sagt (eða annað orð sem eigandinn velur). Við það að nota nafnið hans fer hundurinn að hlusta bara eftir nafninu sínu sem auðveldar slökun því þá er hann ekki að hlusta eftir neinu öðru. Það má líka kalla skipunina “kyrr”, eða “bæli” en við notum “bíða”. Hver eigandi finnur hvað hentar sér best.

Þegar æfingin er æfð í fyrsta skiptið er lykilatriði að láta hundinn bíða örstutt, segja svo nafnið til að bjóða honum að koma og verðlauna. Síðan er smám saman lengdur tíminn sem hann á að bíða og hundurinn verðlaunaður þegar vel gengur. Ef hundurinn brýtur skipun, þ.e. fer af staðnum án þess að honum er hleypt úr skipuninni með nafni, þá þarf einfaldlega að segja nei og leiða hann aftur í bíða skipun. Helst viljum við enda æfinguna með því að hundurinn sofnar en ekki búast við því að það takist strax í fyrstu tilraun. Hann þarf fyrst að fatta út á hvað þetta gengur og síðan er hægt að æfa þetta þannig að hann endar í slökun. Fyrir mjög stressaða hunda er þetta ekki hægt í fyrstu tilraunum og getur tekið langan tíma fyrir þannig hunda að róa sig niður og geta beðið í slökun. Þegar hundurinn getur beðið í langan tíma er bætt við fjarlægð og áreiti. Fjarlægð er þá að þú myndir fara úr herberginu og koma aftur, lengja svo tímann sem hundurinn sér þig ekki. Áreiti er til dæmis að láta bolta rúlla framhjá, láta mat detta á gólfið, hoppa og skrækja til að búa til eitthvað spennandi sem hundurinn myndi venjulega bregðast við. Þar kemur sjálfsstjórnin inn í þetta sem getur síðan hjálpað í að kenna kjurrt skipun, ef hundurinn er til dæmis alltaf að stela öllum mat sem dettur á gólfið.

Þessi skipun getur hjálpað með aðskilnaðarkvíða, stress þegar gestir koma, óöryggi í vissum aðstæðum og margt fleira. Innkallið getur batnað til muna þar sem við hleypum hundinum úr skipuninni með nafninu (eða ákveðnu orði) þannig að hann hlustar þá betur eftir því. Þess vegna getur verið gott að nota nafnið eða sama orð og þú myndir nota ef þú værir að kalla á hann úti við. Þegar gestir koma er mjög þægilegt að senda hundinn í bíða skipun á staðinn sinn og hann má þá ekki koma að heilsa gestunum fyrr en þú leyfir. Þetta er líka rosa hentugt ef þú færð einstakling heim til þín sem er óöruggur eða hræddur við hunda, eða ef þú ferð með hundinn í heimsókn eitthvert og vilt að hann sé rólegur og slaki á. Þá er hægt að nota handklæði, peysu eða hvað sem er til að láta hundinn liggja á og bíða. Bíða skipun er líka mjög flott fyrir hunda sem eru t.d. óöruggir í kringum börn, þá er gott að æfa bíða skipun með börn í kring til að sýna honum að þau gera ekkert. Þá þarf líka að kenna börnunum að leyfa voffa að vera í friði þegar hann er á þessum tiltekna stað, þannig að hundinum líði ekki illa í bíða skipuninni.

Hvað varðar aðskilnaðarkvíðann er þetta góð æfing fyrir hundinn að vera ekki með þér. Þá er æfingin æfð með fjarlægð og tíma, t.d. hversu lengi getur hundurinn verið að bíða á meðan þú ert í næsta herbergi. Þá lærir hann að slaka á þó að þú sért ekki nálægt. Ef þú átt hund sem er “límmiði”, sem vill stöðugt vera hjá þér þannig að honum líður illa án þín, þá er þetta rosalega góð æfing.

Bæði hundurinn og eigandinn græðir heilmikið á því að kenna voffa þessa skipun því það getur einfaldað heimilislífið til muna. Til dæmis gæti verið hentugt að láta hundinn bíða í bælinu sínu á meðan heimilisfólkið borðar kvöldverð til að koma í veg fyrir að voffi sé að sníkja. Munum að vera þolinmóð við hundinn okkar og einbeita okkur að því að leiðbeina þeim í rétta átt og verðlauna þegar vel gengur. Sleppum allri neikvæðni og skömmum og höfum þjálfunina jákvæða. Skiljum stressið eftir annars staðar og njótum þess að þjálfa hundinn okkar.

Reglur

Ég fann það strax þegar ég fékk Vin heim til mín að það skiptir hann miklu máli að hafa reglur sem farið er eftir. Reglur gera hundum svo margt gott ef þeim er fylgt eftir af öllum fjölskyldumeðlimum og engar undantekningar gerðar. 

Þegar hér er rætt um reglur á heimilinu er átt við almennar umgengnisreglur fyrir hundinn. Að mörgu leyti svipar þeim til þeirra reglna sem börnum er gefið heima við. Þessar reglur eru til dæmis að hundurinn megi ekki fara upp í rúm/sófa og ekki betla við matarborðið. Hvert heimili er með sínar reglur en mikilvægast er að allir séu sammála um reglurnar og allir fylgi þeim eftir. Um leið og gerð er endurtekning á reglunum þarf í raun að byrja aftur á því að kenna reglurnar. Sem dæmi gerði ég það strax fyrsta daginn sem Vinur kom til okkar að hafa þá reglu að hann megi ekki vera fyrir mér þegar ég er að elda. Ég er með mjög lítið eldhús og nenni engan veginn að vera sífellt hrasandi um hundinn, einnig vildi ég ekki koma honum í hættu með því að það skvettist á hann af heitri pönnunni eða með því að stíga á hann. Þannig að ég setti honum þá eina reglu strax þegar ég eldaði fyrst eftir að hann kom til okkar. Ég sagði honum hvar hann mátti vera með því að einfaldlega biðja hann um að vera þar, sitja og bíða. Ef hann færði sig á stað þar sem hann var fyrir mér, gerði ég þetta aftur. Svo þegar hann stóð sig vel fékk hann verðlaun sem ég var með við höndina. Þetta svínvirkar og í dag er nóg fyrir mig að benda á staðinn hans eða segja “farðu frá” og þá færir hann sig á sinn stað. Oftar en ekki fer hann bara sjálfur á þennan stað án þess að ég segi nokkuð, sem gerir lífið auðveldara fyrir okkur bæði. 

Það er mikilvægt að allir fjölskyldumeðlimir geri það sama þannig að reglan er fljótari að síast inn í huga hundsins. Best er að allir á heimilinu ákveði reglurnar í sameiningu áður en voffi kemur á heimilið því þá er hann svo fljótur að læra þær. Ekki hafa áhyggjur þó að slíkt hafi ekki orðið hjá þér, því það er svo sannarlega hægt að kenna gömlum hundi að sitja! Það er allt í lagi að setja nýjar reglur, mundu bara að hafa þolinmæðina að vopni og taka þinn tíma í að kenna hundinum reglurnar. 

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta vera mikilvægt, er að þetta getur róar hunda niður. Hundar sem hafa engar reglur á heimilinu og gera það sem þeir vilja, eru oftar en ekki óhlýðnari heldur en þeir sem kunna sínar reglur og fylgja þeim. Stressaðir eða óöruggir hundar verða rólegri þegar þeir hafa reglu í lífinu. Þetta þarf ekki að vera nema kannski ein regla eða tvær. Einnig styrkir það sambandið milli eiganda og hunds, því að ef eigandinn er staðfastur með reglur og sér til þess að hundurinn fylgi þeim, eykst virðing hundsins gagnvart eigandanum. Munum þó að það að framfylgja reglu þýðir ekki að neyða hundinn til þess að gera eitthvað, heldur að sýna honum á jákvæðan hátt hvað við viljum. Það er ekki nóg að segja nei og ætlast til að hundurinn skilji okkur. 

Dæmi um vinsælar reglur eru: 

Ekki byrja að borða matinn fyrr en leyfi er gefið

Ekki betla við matarborðið

Ekki fara upp í sófa, rúm eða önnur húsgögn

Ekki æða út um útidyrahurðina þó hún sé opin

Ekki borða mat þó hann detti á gólfið

Skoðum hvernig okkar reglur eru á okkar heimili og sjáum hvort þetta séu fyrirfram ákveðnar reglur – var þeim skipt út eða hafa þær haldist eins á þeim tíma sem hundurinn hefur dvalið á heimilinu? Oft getur verið erfitt að banna litlum krúttlegum hvolpum t.d. að kúra upp í sófa, en munum að hvolpurinn stækkar hratt. Með reglum og góðu uppeldi getum við skapað æðislegan félaga til margra ára og fyrirbyggt ýmis vandræði.

Yfirvegun

Yfirvegun er það hugarástand sem hundar og öll dýr leitast í, hugurinn róast og öll þjálfun verður auðveldari. Mörg vandamál sem margir kannast við er erfitt að losna við án yfirvegunar og því er gott fyrir alla hundaeigendur að ýta undir yfirvegun hjá sjálfum sér og hundunum sínum.

Það er alltaf jafn merkilegt þegar hundar finna á sér ef eigandanum líður illa. Hundurinn getur auðveldlega fundið út hvernig okkur líður með því að skoða líkamstjáningu okkar og með því að nota hið ótrúlega lyktarskyn sem hundar búa yfir. Þannig veit hundurinn þinn hvernig þér líður, hvort sem það eru jákvæðar tilfinningar (gleði og hamingja) eða neikvæðar tilfinningar (stress, kvíði, reiði, depurð). Hundar eru því oft speglar á okkar líðan og sýna okkur ef við erum ekki í tilfinningalegu jafnvægi. Það getur haft talsverð áhrif á þjálfunina ef við látum okkar tilfinningar verða yfirþyrmandi. Ef við erum til dæmis að flýta okkur, við erum stressuð og þurfum að drífa okkur í því að láta hundinn gera eitthvað, finnur hann það strax og verður erfiðari fyrir vikið. Á meðan við erum yfirveguð þegar við þjálfum hundinn okkar, auðveldar það hundinum að vera yfirvegaður á móti. Yfirvegunin er það hugarástand sem hundurinn leitar í og má líkja því hugarástandi við það hvernig kettir eða hestar eru oft. Þegar dýrum líður vel eru þau í yfirveguðu hugarástandi og það gerir þeim kleift að vera laus við stress, óöryggi og aðrar neikvæðar tilfinningar.

Yfirvegaður hugur er laus við öll vandamál. Yfirvegun er það þegar maður getur tekið krefjandi aðstæðum með hugarró, skýrri hugsun og getur tekið skynsamar ákvarðanir. Það er eðlilegt að maður myndi með sér pirring eða reiði í krefjandi aðstæðum, t.d. ef hundurinn verður of æstur við hljóðið í dyrabjöllunni. Því er rosalega mikilvægt að eigandinn sé yfirvegaður í allri þjálfun hundsins, sem ýtir undir yfirvegað ástand hundsins og auðveldar þjálfun. Yfirvegaður hundur tekur skynsamar ákvarðanir og hlýðir betur í krefjandi aðstæðum.

Margir hundaeigendur kannast við þau vandamál að hundurinn gelti, sé æstur þegar gestir koma eða eigi erfitt með að mæta öðrum hundi í göngutúr. Yfirvegun er lykilatriði til að bæta úr þessu og því eru margir hundar sem þyrftu að æfa yfirvegun. Það eru mörg atriði sem geta aðstoðað hundinn í að komast í yfirvegað hugarástand. Sem dæmi getur uppsöfnuð orka hundsins gert okkur miklu erfiðara í að fá hann til að róa sig niður. Skortur á hreyfingu gerir það erfitt fyrir hugann að slaka á og því er gott að skoða hvort það sé eitthvað sem þarf að bæta. Við sem eigendur þurfum einnig að vera yfirveguð sjálf, vera við stjórn, vinna inn virðingu og traust hundsins með því að vera leiðtogi hans. Verum því dugleg að hrósa, anda rólega og tökum ekki stressið með okkur heim úr vinnunni.