Category Archives: Uncategorized

Hundar og börn

Það er mikil ábyrgð að vera bæði með börn og hund á heimilinu en á sama tíma er yndislegt að sjá börnin okkar alast upp með ferfætlingunum og eiga þar mjög fallega vináttu. En oft getur verið stutt í hræðileg atvik sem ekkert foreldri vill þurfa að ganga í gegnum; að hundurinn bíti barnið. Virðum bæði börnin og hundinn sem einstaklinga og pössum að öll þeirra samskipti séu virðingarrík og kurteis.

Það þarf að kenna hundinum að umgangast börn en alveg jafn mikilvægt – og jafnvel mikilvægara – er að kenna börnunum að umgangast hundana okkar. Á mínu heimili er bæði barn og hundur með mikilvægar umgengnisreglur sem bæði þurfa að fylgja og við fullorðna mannfólkið pössum upp á að þessum reglum sé fylgt. Barnið mitt er ekki orðið 2ja ára þegar þetta er skrifað og því er aldur ekki fyrirstaða til þess að kenna þetta. Hér eru nokkrar reglur sem ég var með á mínu heimili fyrir minn þá 5 ára hund og næstum 2ja ára barn:

  • Barnið má ekki trufla hundinn þegar hann er í bælinu sínu, þegar hann sefur eða er að borða.
  • Barnið passar sig að stíga ekki á skott eða grípa í eyru. Ég hef einfaldlega að andlit er ekki í boði en barnið má klappa rólega á baki eða bringu.
  • Hundurinn má ekki fara inn í barnaherbergið þegar barnið er að leika sér þar inni.
  • Hundurinn má ekki taka dótið sem barnið á, hann á líka dót sem barnið má ekki taka.

Gott er að hafa í huga er að við foreldrarnir erum fyrirmynd barnanna okkar, eins og þið vitið nú öll. Oft gerir maður samt hluti sem maður vill ekki að barnið geri, t.d. ýta hundinum frá með hendi eða ærslast í leik. Því þurfum við að passa líka hvernig við erum með hundinum, á mínu heimili fylgjum við t.d. sjálf fyrstu reglunni hér að ofan. Börnin, alveg eins og hundarnir, fylgjast vel með öllu sem við gerum og eru vís til þess að herma eftir því sem við gerum í okkar samskiptum við voffa. Þess vegna er algjört lykilatriði að við komum líka vel fram við hundana, eins og við viljum að barnið komi fram við þá.

Að mínu mati er aldrei fullkomlega öruggt að skilja barn og hund eftir án eftirlits. Maður veit aldrei hvenær ungu barni dettur í hug að pota í sofandi hund eða hundurinn fær nóg af einhverju öðru áreiti í umhverfinu. Verum vakandi yfir þessu og fylgjumst alltaf vel með samskiptum hunda og barna, alveg sama hversu vel við treystum hundinum þá geta óhöppin alltaf gerst og þau gerast hratt.

Annað sem er mjög mikilvægt í þessu öllu saman er að hundaeigendur kynni sér merkjamál hunda. Oft halda eigendur að hundinum sé sama þó barn sé að toga í eyru eða hnoðast á hundinum en þegar betur er að gáð, er hundurinn að reyna að segja þér/barninu að hann vilji þetta ekki. Hundar eru misþolinmóðir, við skulum ekki bíða þar til hann missir þolimæðina og glefsar í barn. Fylgjumst vel með líkamstjáningu hundsins okkar og lærum inn á merkjamál hunda, til þess að geta brugðist tímanlega við ef hann sýnir einhver merki um að líða óþægilega í aðstæðunum. Hér er einnig mikilvægt að ef hundur urrar – ekki skamma, því þá fer hann að hætta því að urra og fer beint í að bíta. Þá missir maður þessa mikilvægu viðvörun sem urrið er og hundurinn sleppir því skrefi, því fer hann beint í að glefsa/bíta frá sér.

Mér þykir rétt að minnast á það í þessu samhengi, hversu mikilvægt það er að kenna börnunum okkar að nálgast ekki ókunnuga hunda þar sem við þekkjum ekki þeirra reynslu. Kennum börnunum að gefa ókunnugum hundum rými og frið, ásamt því að spyrja um leyfi til að klappa hundinum ef eigandinn er við hlið hans.

Hér er stiklað á stóru í þessum efnum en vonandi er þetta eitthvað sem getur aðstoðað aðra foreldra þarna úti sem vilja að börnin sín umgangist hunda á fallegan og jákvæðan hátt.

Birta Ýr Baldursdóttir, hundaatferlisfræðingur.

Að nota búr

Undanfarið hefur verið mikil umræða um það hvort rétt sé að venja hunda á búr og hvort það ætti hreinlega að banna notkun búra. Ég er sjálf hlynnt búrnotkun sé það gert á réttan hátt en hver hundaeigandi ákveður það hvort hann vilji nota búr, það er ekki alltaf sem búr henta. Hér eru nokkrir góðir kostir þess að nota búr, alls ekki tæmandi listi en gott að spá í svona hlutum þegar maður tekur þessa ákvörðun. Ef nota á búr, er það gríðarlega mikilvægt að venja hundinn á búrið á réttan hátt, þannig að hundurinn tengi það við jákvæða reynslu og það verði hans griðarstaður.


Þegar hvolpur er nýkominn á heimilið kann hann ekki (í flestum tilfellum) að sinna sínum þörfum úti við. Við tekur þjálfun við að gera hvolpinn húshreinan og þar getur búrið hjálpað gífurlega. Ef hvolpurinn er farinn að sjá búrið sitt sem griðarstað, sem sitt svæði, þá vill hann helst ekki pissa/kúka þar og vill frekar fara út úr búrinu til að sinna þörfum sínum. Þannig er hægt að nota búrið sem hjálpartæki í því að húsvenja hunda, þ.e. ef þú getur ekki fylgst með honum í þessa stund sem hann er í búrinu og hleypir honum svo strax út þegar hann sýnir þér að hann þurfi að losa. Þó skal hafa í huga að ef ekkert eftirlit er til staðar getur hundurinn gripið til þess örþrifaráðs að pissa í búrið því hann hreinlega getur ekki haldið í sér og þess vegna verður alltaf að hafa eftirlit með ungum hvolpum. 

Annað með hvolpana að þegar þeir eru að kanna heiminn þá gera þeir það með kjaftinum líkt og mannabörnin. Svo fara þeir að missa tennur og klæjar svakalega í góminn – og naga þá jafnvel stólfætur og skó, okkur til mikillar gleði. Búrið getur líka hjálpað í þessum aðstæðum og kemur í veg fyrir að hvolpurinn nagi eitthvað sem getur verið jafnvel hættulegt fyrir hann. Ég tek það fram að ég er alls ekki að meina að það eigi að geyma hvolpinn bara í búrinu, heldur er hægt að nota það sem aðstoðartæki þegar þú þarft t.d. að hoppa í sturtu og enginn annar er heima til að fylgjast með hvolpinum. Það er ekki hægt að nota búrið á þennan hátt ef hundinum líður illa í búrinu og þá þarf að venja hann betur á búrið fyrst.

Hundar með hegðunarvandamál geta leitað í búrið sitt ef þeim líður illa í aðstæðunum og vilja öryggi búrsins frekar. Hvað meina ég með þessu? Jú ef hundar eru mjög stressaðir í ákveðnum aðstæðum, t.d. margir gestir heima / stressaðir einn heima, þá getur góð tenging í búrinu skipt sköpum.
Dæmi: Vinur, gamli hundurinn minn, varð mjög stressaður þegar ég fékk marga gesti í heimsókn og honum leið ekki vel þegar hann var frammi með öllum. Eftir nokkrar tilraunir ákvað ég að athuga hvort hann vildi frekar vera í friði í búrinu sínu með nammi og honum leið miklu betur þar. Því gerði ég það þegar ég átti von á mörgum gestum (t.d. afmælisveisla) þá setti ég hann í búrið sitt með fyllt Kong inni í herbergi áður en gestirnir komu, svo var hann bara rólegur þar allan tímann. Hann var það rólegur að sumir gestanna vissu ekki einu sinni að ég ætti hund, því það heyrðist ekkert í honum, hann var bara rólegur með nammið sitt í búrinu í ró og friði. Svo þegar gestirnir voru farnir (eða fáir eftir) hleypti ég honum út og við gerðum eitthvað skemmtilegt saman. 

Mjög sniðugt ef mörg börn eru á heimilinu og hundurinn fær kannski ekki mjög mikinn frið (mjög algengt), að hafa þá búrið á rólegum stað og hafa það alltaf aðgengilegt. Þá er mikilvægt að hafa það að strangri reglu að börnin mega ekki trufla hundinn þegar hann er í búrinu (jafnvel þó það sé opið) svo að hann geti fengið frið þar ef hann vill það. Við verðum að passa að hundarnir fái pásu frá okkur, alveg eins og við þurfum stundum pásu frá þeim. Við viljum að hundurinn fái frið á sínum griðarstað og fái þar aukið öryggi og líði vel.

Búr geta líka auðveldað málið gífurlega þegar hundurinn þarf að fara í pössun annars staðar. Ef hundurinn er vanur því að sofa í búrinu sínu og það er hans griðarstaður, er minna mál að setja hann í pössun þar sem hann tekur “herbergið sitt” með sér. Ef hundurinn er vanur því að sofa t.d. uppí rúmi eiganda síns, þá getur verið meira vesen að passa hann því hann myndi þá annað hvort heimta að sofa uppí hjá þeim sem passar, eða hreinlega ekki vilja fara að sofa því það vantar aðalatriðið – eigandann. 

Bílferðir eru talsvert öruggari ef hundurinn er í búri í bílnum. Það þarf þó sérstaklega að venja þá á það að vera í búri í bíl en flestir finna fyrir meira öryggi í búri heldur en ef þeir eru í beltum í bílnum. Búrin passa okkur mannfólkið betur í árekstri líka, þ.e. við högg getur hundurinn farið á flug í bílnum rétt eins og aðrir lausamunir og jafnvel slegist í okkur, aftan á sæti ökumanns og þess háttar. Ef hann er í föstu búri þá helst hann innan búrsins, svo lengi sem búrið er traust og öruggt. 


LYKILATRIÐI í því að nota búrið rétt er að hundinum líði vel í búrinu. Það þarf því að búrvenja rétt og passa að hundurinn tengi jákvæða hluti við búrið sitt, t.d. nammi, slökun og öryggi. Byrjaðu á byrjuninni, ekki henda hundinum bara inní búr og vona það besta heldur gerðu þetta á jákvæðan hátt svo að hann fari að leita í búrið sjálfur. 

Höfundur: Birta Ýr Baldursdóttir, hundaatferlisfræðingur. 

Að vera einn heima

Það eina sem hvolpurinn þekkir áður en hann kemur inn á heimilið, er mamma sín og gotsystkini ásamt þeirri fjölskyldu sem hugsaði um þau þar sem hann fæddist. Það er ansi hart að ætlast til þess að hvolpur geti strax verið einn heima án þess að fá nokkra þjálfun í því. Þetta er eitthvað sem stundum gleymist því hundurinn “á bara að geta þetta”. Fullorðnir hundar hafa oft aldrei þurft að vera einir heima þar til aðstæður breytast og þá þarf líka að kenna þeim að það sé allt í lagi að vera skilinn eftir. Algengt er fyrir hunda sem hafa farið á mikið flakk um ævina að eiga við þetta vandamál að stríða.

Lítum á hvað er hægt að gera fyrir hundinn þegar það þarf að skilja hann eftir heima. Þessi listi er alls ekki tæmandi, heldur aðeins nokkur atriði sem hægt er að skoða og spá í. Best er að fá fagaðila til að aðstoða þig ef (helst áður en) þetta er orðið stórt vandamál. Hver hundur og hvert heimili er mismunandi með það hvað hentar hverju sinni.

 

Best er að byrja á því að verðlauna hundinn áður en hann fer að væla. Sem dæmi, ef þú ferð út og hann byrjar að væla eftir 3 mínútur, þá ferðu aftur inn eftir 2 mínútur og verðlaunar hann. Þetta þarf að gera nokkrum sinnum þannig að hann fatti að þú kemur alltaf aftur og hann fær verðlaun þegar hann vælir ekki. Ef hundurinn fer að væla þá veistu að hann er kominn yfir sinn þröskuld og þá er það orðið of langur tími fyrir hann.  Smám saman er hægt að lengja tímann en þetta tekur tíma. Þá eru hérna nokkur önnur atriði sem hjálpa líka við í þessu ferli.

Skoðum fyrst hvar hann á að vera. Viltu hafa hann í búri, með afmarkað svæði eða viltu að hann sé laus í allri íbúðinni? Mér finnst best að hafa hunda annað hvort í búri eða með afmarkað svæði því ef hundurinn er alveg laus, þá getur það stressað hundinn enn frekar því hann fer að verja allt svæðið. Þá fer hann líklegast að ganga fram og aftur um íbúðina til að passa hana í stað þess að slappa af. Fyrst þarf að gera staðinn, hvort sem það er búr eða afmarkað svæði, að góðum og afslappandi stað. Þá er hægt að draga fyrir glugga ef það er mikið áreiti fyrir utan og tengja staðinn við rólegheit, svefn og mat. Annað varðandi staðsetninguna er að athuga hvort hundurinn sjái útidyrahurðina, því það getur oft verið erfiðara fyrir hunda að sjá þig fara.

Síðan er gott að skoða hvað þú gerir sem kveikir á stressinu í hundinum. Þá meina ég að finna út hvað það er sem kemur hundinum til að væla ef það er það sem hann gerir einn heima, hvað kemur hegðuninni af stað. Oft getur það verið að klæða sig í skóna, grípa lyklana eða starta bílnum. Fyrir suma hunda getur það verið að fara inn í búr, sem getur gerst ef hundurinn er bara settur þangað þegar hann er skilinn eftir einn heima og þá þarf að aftengja það með því að hafa hann líka þar þegar heimilisfólkið er heima. Ef hegðunin byrjar t.d. um leið og þú klæðir þig í úlpuna, geturðu aftengt það við það að fara – með því að fara í úlpuna og setjast svo bara í sófann eða gera það sem þú varst að gera. Þá ertu að gera þetta ómerkilegt og ef þú gerir þetta nógu oft þá fattar hundurinn að þó þú farir í úlpuna þá ertu ekkert endilega að fara.

Hljóð geta líka skipt hunda miklu máli. Það getur hjálpað þeim gífurlega að hafa eitthvað hljóð í gangi sem er líka þegar fólk er heima við, t.d. útvarpið eða sjónvarpið. Ef þú ert t.d. oft með útvarpið í gangi þegar þú ert heima, geturðu líka kveikt á útvarpinu ca 15 mínútum áður en þú ferð og haft kveikt á því á meðan þú ert í burtu. Með þessu ertu að minnka líkurnar á því að hundurinn sitji og hlusti eftir hreyfingum á heimilinu og taki síður eftir því þegar þú ferð síðan. Einnig getur þetta hjálpað þeim hundum sem eru viðkvæmir fyrir umgangi í kringum húsið. Hér er líka gott að slökkva ekki á útvarpinu um leið og heim er komið, heldur bíða í ca 10-15 mínútur fyrst.

Eitt sem er einnig mikilvægt í þessu ferli er að láta hundinn hafa verkefni – eitthvað að gera á meðan hann er einn heima, t.d. hafa nagbein eða fyllt Kong (eða aðrar sambærilegar þrautir). Þetta verður að vera eitthvað sem er öruggt að leyfa hundinum að fá í einrúmi, sem krefst ekki eftirlits. Þá er hundurinn ekki að einbeita sér að því að hann sé einn, heldur er hann að leysa verkefnið og hugsar um það á meðan það endist. Það hjálpar einnig í að þreyta hundinn þannig að hann er þá líklegri til þess að hvíla sig líka.

Það er ósköp eðlilegt að vilja heilsa hundinum sínum þegar maður kemur heim eftir langan vinnudag og mjög eðlilegt að hundurinn vilji slíkt hið sama, en ef æsingurinn er rosalega mikill getur þetta ýtt undir það að hundinum finnist erfitt að vera einn heima. Það getur því verið gott að sleppa því að kveðja og heilsa, í rauninni láta sem ekkert sé og eins og þú sért bara að skreppa í næsta herbergi þegar þú ferð burt. Segja ekkert og ef hundurinn æsist þegar þú kemur heim, jafnvel þó þú látir sem ekkert sé, skaltu bíða þar til hann róar sig og heilsa honum þá á yfirvegaðan hátt. Þetta getur hjálpað hundinum að átta sig á að þú viljir frekar að hann sé rólegur og þá fær hann athyglina, heldur en að hann sé kannski hlaupandi um og jafnvel flaðrandi upp um þig í dyragættinni.

 

Eins og áður kemur fram er þetta ekki tæmandi listi og ekki víst að þessir hlutir eigi við hvaða hund sem er. Ef þú ert ekki viss hvað þú getur gert, er langbest að fá hundaþjálfara til liðs við sig og fá aðstoð.

 

 

Áttu von á barni? Hvað með voffa?

Það getur verið mjög erfitt fyrir hundana okkar þegar það bætist við í fjölskylduna lítið kríli sem tekur athyglina frá voffunum. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga til að undirbúa ferfætlinginn fyrir komu barns á heimilið

Ath að hver hundur er mismunandi og það er ekki víst að þinn hundur þurfi slíkan undirbúning.

1. Almenn hlýðni

Þjálfaðu hundinn nokkrum mánuðum áður en barnið kemur, í þeim atriðum sem geta hjálpað ykkur þegar barnið er komið. Ef þjálfunin byrjar á sama tíma og barnið kemur, setur það aukið álag á hundinn því að þá koma allar breytingarnar á sama tíma. Ef illa gengur í þjálfun getur það haft áhrif á það hvernig hundurinn lítur á barnið og getur jafnvel farið að tengja barnið við stress og brugðist illa við því. 

Hér eru nokkur dæmi um atriði sem gott er að skoða – þetta er ekki tæmandi listi heldur einungis dæmi og er mismunandi hvað hvert heimili þarf. Almennt er gott að skerpa á allri hlýðni og viðhalda henni til að koma í veg fyrir óhlýðni út af stressi þegar barnið er komið.

  • Að fara í bælið og hvíla sig þar í slökun. Þetta er í rauninni bíða skipun (sjá hér) gerð þannig að hægt sé að biðja hann um að fara “í bæli” og þá fer hann þangað, leggst niður og hvílir sig. Hann fær ekki að koma úr bælinu fyrr en ég gef leyfi með nafninu hans. 
  • Kjurrt”: Að taka ekki mat eða aðra spennandi hluti af gólfinu þó maður missi eitthvað á gólfið. Góð “kjurrt” skipun getur líka verið þannig að hundurinn sleppir því sem hann er búinn að setja í kjaftinn og bakkar frá hlutnum þannig að auðvelt er fyrir þig að taka þetta frá honum.
  • “Fara fram” getur verið mjög nytsamlegt ef þig vantar smá rými fyrir þig og nýja barnið. Þessi skipun skýrir sig sjálf – hundurinn á að fara fram og bíða þar.

2. Bannsvæði 

eru sniðug ef maður vill hafa slíkt – kenndu hundinum að hann má ekki koma inn á ákveðið svæði, t.d. barnaherbergið þar sem er fullt af dóti og spennandi hlutum á gólfinu. Þetta þarf að ítreka í hvert skipti sem hundurinn fer í herbergið og því mikilvægt að fylgjast vel með. Hægt er að nota barnahlið til öryggis en það er kannski ekki þægilegt ef foreldrar og barn eru oft á ferðinni yfir þröskuldinn. Ef hundurinn á erfitt með að læra það að hann má ekki fara þarna inn getur verið nytsamlegt að setja svart teip á þröskuldinn þannig að þröskuldurinn/mörkin eru greinilegri. Mikilvægt er að hundurinn hafi ekki greiðan aðgang í herbergið t.d. á meðan hann er einn heima eða eftirlitslaus. 

3. Dreifðu álaginu

Ekki bæta inn öllum barnahúsgögnum á sama tíma, stuttu áður en barnið kemur í heiminn. Vertu búin að koma fyrir flestum húsgögnum áður en barnið kemur og helst dreifa því yfir nokkra mánuði, eitt (eða lítið) í einu. Þá eru breytingar á heimilinu ekki yfirþyrmandi og álagið á hundinum (og jafnvel verðandi foreldrum líka) dreifist yfir lengri tíma. 

  • Tengdu æskilega hegðun við þessi nýju húsgögn, t.d. ef þú vilt ekki að hundurinn reyni að kíkja í vögguna eða leggist á leikteppið, sýndu honum það áður en barnið er komið. Kenndu honum hvernig þú vilt að hann umgangist þessa hluti, með því að leiðrétta hann og sýna honum hvað er æskilegt. 

4. Ný hljóð

Aðlagaðu hundinn við þau hljóð sem munu koma til með að fylgja barninu. Spilaðu myndbönd eða hljóðbrot af t.d. barnsgráti, barni að hlæja og slík hljóð sem heyrast þegar barnið er komið. Ef hundurinn stressast upp við það, lækkaðu þá í hljóðinu og truflaðu hann á meðan með t.d. nammi eða leik. Þannig ertu þá að tengja hljóðið við eitthvað jákvætt. Þegar hann er hættur að kippa sér upp við hljóðin á lágri stillingu geturðu smám saman farið að hækka og gert eins, alveg þar til hann hættir að spá í hljóðinu.

Jafnvel getur verið sniðugt að halda á dúkku eða bangsa líkt og að halda á barninu á meðan hljóðin eru spiluð. Ef ætlunin er að nota burðarpoka undir barnið er sniðugt að setja dúkkuna eða bangsann í svoleiðis og vera með á sér á meðan þú þjálfar hundinn. Hreyfingarnar okkar verða öðruvísi með barn framan á okkur og því getur verið gott að venja hundinn á aðeins öðruvísi líkamsbeitingu.

5. Ekki sama rútína og áður

Hafðu óreglu á göngutúrum og þjálfun. Þegar nýtt barn er komið á heimilið verður að öllum líkindum skekkja í rútínu, bæði á svefni, þjálfun hundsins og göngutúrum. Það getur verið mjög gott að fara á mismunandi tímum í göngutúr þannig að hundurinn sé ekki alltaf að bíða órólegur eftir göngunni sinni á sama tíma dags, heldur er göngutúrinn á óútreiknanlegum tímum. Annað sem er sniðugt að gera er að fá mismunandi aðila til að labba með hundinn, því það getur jú komið fyrir að heimilisfólkið er of upptekið til að geta sinnt hundinum eins vel og æskilegt er. Þá er gott að hundurinn sé vanur því að t.d. vinir og vandamenn fari með hann í göngutúr. Ef hundurinn er í þjálfun í taumgöngu eða er vanur ákveðinni tækni, vertu viss um að kenna þessum aðilum hvernig sú tækni er, þannig að hundinum finnist þetta ekki stressandi og ruglingslegt. Þetta á einnig við um aðra þjálfun ef það er eitthvað sérstakt sem þarf að viðhalda sem fjölskyldan hefur mögulega ekki tíma fyrir með lítið ungabarn. 

6. Smá “time-out” / pása frá barni eða öðru áreiti

Gott er að hundurinn geti verið rólegur í búri eða á sérstökum svæðum þar sem hann má vera en þarf jafnvel að vera einn, t.d. afgirt herbergi eða slíkt. Þetta er misjafnt eftir heimilinum en oft getur verið gott að fá smá pásu frá hundinum og geta þá sett hann í búr eða á þetta tiltekna svæði þar sem hann er þá rólegur og slaki á. Þetta gildir ekki bara í kringum barnið heldur líka ef þú finnur að hundurinn þarf pásu eins og t.d. ef það eru gestir og hundurinn er órólegur. Hann þarf að finna öryggi á þessum stað og gott er að gefa honum nagbein til að dunda sér við. Hér má líka nota bíða skipun en oft þarf að geta lokað hundinn af, þ.e. að þurfa ekki að spá í honum í smástund.

7. Þú ræður hvenær voffi fær athygli. 

Ef hundurinn þinn er með “athyglisleitandi” takta, þ.e. eitthvað sem hann gerir þegar hann vill fá athygli – þá er gott að venja hann af slíkri hegðun með því að hunsa hegðunina eða þá að fá hann til að bíða í bæli til þess að róa hugann. Ekki standa upp og fara að leika við hann ef hann biður svona um athygli því það er eitthvað sem er ekki endilega hægt þegar barnið er komið.

Önnur atriði sem gott er að hafa í huga

Eitt sem er svo sniðugt að gera þegar barnið er komið í heiminn og er væntanlegt heim til sín, er að fara fyrst heim með flík sem barnið hefur verið í. Gott er að leyfa hundinum að þefa af flíkinni og hafa flíkina t.d. í vöggu eða rimlarúminu. Hundurinn ætti að venjast lyktinni og verður því auðveldara fyrir hann þegar barnið kemur síðan stuttu seinna á heimilið. 

Annað sem gott er að muna eftir er að heilsa hundinum eins og venjulega þegar þú kemur heim með barnið. Sniðugt er að maki eða annar sem getur aðstoðað, sé með barnið á meðan þú heilsar hundinum þínum og svo geturðu farið með barnið inn.

Ég tel það best að hver hundaeigandi meti sinn hund og finni það sjálfur hvort hann vilji að hundurinn fái að heilsa barninu strax eða hvort hundurinn eigi að virða barnið og ykkur með því að gefa barninu (og þér ef þú heldur á barninu) gott pláss. Þetta fer alveg eftir hundinum og ég tel enga leið vera réttari en aðra þegar það kemur að þessu.

Þegar barnið er nýkomið og allir eru að aðlagast nýju lífi eru bæði foreldrar, barn og hundur að aðlagast breyttum tímum. Á þessum aðlögunartíma tengir hundurinn allt saman, annað hvort á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Ekki skamma hann eða ávíta í návist barnsins því hann gæti tengt skammirnar við barnið. Hafðu alla þjálfun og öll samskipti við hundinn jákvæð (helst alltaf en sérstaklega í kringum barnið) til þess að hundurinn tengist barninu jákvæðum böndum.

Munum að verðlauna voffa þegar hann stendur sig vel – ekki bara banna honum heldur þarf hann að vita líka hvað er æskileg hegðun! 

Pössum okkur að gleyma ekki ferfætlingunum okkar þegar nýtt og spennandi kríli mætir á svæðið. Ef við finnum að við höfum ekki tíma fyrir þá, fáum hjálp og pössum að þeir fái það sem þeir þurfa, t.d. næg hreyfing, andleg örvun, þjálfun og athygli daglega.

Umhverfisþjálfun

Umhverfisþjálfun er stór og mikilvægur partur af uppeldi hvolpa. Umhverfisþjálfunin er í raun það að venja hvolpinn ýmsa hluti í umhverfinu þannig að hann verði öruggari með sig í nýjum aðstæðum. 

Mikilvægi umhverfisþjálfunar í uppeldi hunda er ekki minna mikilvægur heldur en hlýðniþjálfun. Hundar eru forvitnastir og opnir fyrir nýjum hlutum og aðstæðum þegar þeir eru hvolpar, alveg að 12-18 vikna aldri. Á þessu tímabili er mikilvægt að kynna hvolpana fyrir nýjum aðstæðum til að koma í veg fyrir hræðsluvandamál seinna meir. Verum dugleg að kynna hvolpana okkar fyrir nýju fólki, hlutum og mismunandi aðstæðum og sýnum þeim að það er ekkert að óttast. 

Það fyrsta sem mikilvægt er að hafa í huga í umhverfisþjálfun eru okkar eigin viðbrögð. Það er eðlilegt að hvolpurinn sé smeykur við eitthvað en þá er það hlutverk eigandans að sýna hlutleysi eða tengja jákvætt við það sem hann er hræddur við til þess að sýna hvolpinum að það sé ekkert að óttast. Ekki klappa hundi sem er vælandi því þá ertu að styrkja þá hegðun og ýta undir hana.

Einnig er mikilvægt að leyfa hundinum að stjórna hraðanum og leyfa honum að nálgast hlutinn ef/þegar hann vill það sjálfur. Ekki þvinga hann til að þefa af því sem verið er að kynna hann fyrir. Það sama gildir með fólk, leyfðu hvolpinum að nálgast fólkið en ekki öfugt. Ef hvolpurinn þinn sýnir hræðslu- eða streitumerki, skaltu gefa honum meira pláss og meiri tíma til að vinna úr því sem er að gerast. 

Að tengja jákvætt er að gera eitthvað skemmtilegt eða gefa hundinum nammi á meðan hluturinn er nálægt eða hljóðið er í gangi. Passa bara að hundurinn sé ekki of stressaður og styrkja yfirvegun með því að vera yfirvegaður sjálfur. 

Til stuðnings er hérna myndband (á ensku) um sama efni.  

1. Mismunandi fólk

Kynntu hundinn þinn fyrir fólki á öllum aldri, fólki af öllum stærðum. Lítil börn í kerrum, eldra fólk með göngustafi/göngugrindur, fólk með hatta, hjálma, regnhlífar, trefla og skegg. Hundar geta myndað með sér hræðslu við sérstaka hluti eins og t.d. hávaxna karlmenn, allt því að þeir kynntust ekki slíku fólki á jákvæðan hátt. 

2. Mismunandi farartæki

Mótorhjól, flutningabílar, vinnuvélar, vespur, hjól og hlaupabretti. Allt þetta gefur frá sér mismunandi hljóð og fer hratt yfir, sem getur verið ógnvekjandi fyrir litla hvolpa. 

3. Hljóð og hlutir á heimilinu

Eitt af því algengasta sem hundar eru hræddir við eru ryksugur á heimilinu. Hægt er að koma í veg fyrir það með því að kynna ryksugur fyrir hvolpum og tengja við jákvæða hluti. Annað sem margir hundar hræðast eru blandarar, hárþurrkur, að færa húsgögn og jafnvel hljóðlausir hlutir eins og moppur eða sópar. 

4. Aðrir hundar

Flestir hundar elska að vera í félagsskap með öðrum hundum en því miður kunna það ekki allir. Komdu í veg fyrir slíkt með því að kynna hvolpinn þinn fyrir öðrum hundum sem hafa góða félagshæfni og geta þannig kennt þínum hundi rétt samskipti. Einnig er gott að kynna hvolpinn fyrir öðrum hundum af mismunandi stærðum og tegundum þannig að hann sé öruggur með hvaða hundi sem er.

5. Dýralæknaheimsóknir og meðhöndlun

Farðu til dýralæknisins bara til þess að æfa það að bíða á biðstofunni í allri þeirri lykt sem safnast saman þar. Ef dýralæknirinn hefur tök á því er flott ef hann hefur tíma til að heilsa hvolpinum og gefa honum nammi. Gott er að venja hvolpinn á þukl og skoðun, vertu dugleg/ur að skoða tennur, eyru, augu, skott/afturenda, þófa og klær þannig að auðveldara verði að skoða og snyrta hundinn í framtíðinni. 

Vertu dugleg/ur að fara með hvolpinn þinn á nýja staði reglulega og hvetja hann til að skoða nýja hluti og hitta nýtt fólk á jákvæðan hátt. Njóttu þess að eiga lítinn hvolp sem er forvitinn um umhverfið sitt – venja hann við hluti til að koma í veg fyrir hræðslu seinna meir.