Hundar og börn

Það er mikil ábyrgð að vera bæði með börn og hund á heimilinu en á sama tíma er yndislegt að sjá börnin okkar alast upp með ferfætlingunum og eiga þar mjög fallega vináttu. En oft getur verið stutt í hræðileg atvik sem ekkert foreldri vill þurfa að ganga í gegnum; að hundurinn bíti barnið. Virðum bæði börnin og hundinn sem einstaklinga og pössum að öll þeirra samskipti séu virðingarrík og kurteis.

Það þarf að kenna hundinum að umgangast börn en alveg jafn mikilvægt – og jafnvel mikilvægara – er að kenna börnunum að umgangast hundana okkar. Á mínu heimili er bæði barn og hundur með mikilvægar umgengnisreglur sem bæði þurfa að fylgja og við fullorðna mannfólkið pössum upp á að þessum reglum sé fylgt. Barnið mitt er ekki orðið 2ja ára þegar þetta er skrifað og því er aldur ekki fyrirstaða til þess að kenna þetta. Hér eru nokkrar reglur sem ég var með á mínu heimili fyrir minn þá 5 ára hund og næstum 2ja ára barn:

  • Barnið má ekki trufla hundinn þegar hann er í bælinu sínu, þegar hann sefur eða er að borða.
  • Barnið passar sig að stíga ekki á skott eða grípa í eyru. Ég hef einfaldlega að andlit er ekki í boði en barnið má klappa rólega á baki eða bringu.
  • Hundurinn má ekki fara inn í barnaherbergið þegar barnið er að leika sér þar inni.
  • Hundurinn má ekki taka dótið sem barnið á, hann á líka dót sem barnið má ekki taka.

Gott er að hafa í huga er að við foreldrarnir erum fyrirmynd barnanna okkar, eins og þið vitið nú öll. Oft gerir maður samt hluti sem maður vill ekki að barnið geri, t.d. ýta hundinum frá með hendi eða ærslast í leik. Því þurfum við að passa líka hvernig við erum með hundinum, á mínu heimili fylgjum við t.d. sjálf fyrstu reglunni hér að ofan. Börnin, alveg eins og hundarnir, fylgjast vel með öllu sem við gerum og eru vís til þess að herma eftir því sem við gerum í okkar samskiptum við voffa. Þess vegna er algjört lykilatriði að við komum líka vel fram við hundana, eins og við viljum að barnið komi fram við þá.

Að mínu mati er aldrei fullkomlega öruggt að skilja barn og hund eftir án eftirlits. Maður veit aldrei hvenær ungu barni dettur í hug að pota í sofandi hund eða hundurinn fær nóg af einhverju öðru áreiti í umhverfinu. Verum vakandi yfir þessu og fylgjumst alltaf vel með samskiptum hunda og barna, alveg sama hversu vel við treystum hundinum þá geta óhöppin alltaf gerst og þau gerast hratt.

Annað sem er mjög mikilvægt í þessu öllu saman er að hundaeigendur kynni sér merkjamál hunda. Oft halda eigendur að hundinum sé sama þó barn sé að toga í eyru eða hnoðast á hundinum en þegar betur er að gáð, er hundurinn að reyna að segja þér/barninu að hann vilji þetta ekki. Hundar eru misþolinmóðir, við skulum ekki bíða þar til hann missir þolimæðina og glefsar í barn. Fylgjumst vel með líkamstjáningu hundsins okkar og lærum inn á merkjamál hunda, til þess að geta brugðist tímanlega við ef hann sýnir einhver merki um að líða óþægilega í aðstæðunum. Hér er einnig mikilvægt að ef hundur urrar – ekki skamma, því þá fer hann að hætta því að urra og fer beint í að bíta. Þá missir maður þessa mikilvægu viðvörun sem urrið er og hundurinn sleppir því skrefi, því fer hann beint í að glefsa/bíta frá sér.

Mér þykir rétt að minnast á það í þessu samhengi, hversu mikilvægt það er að kenna börnunum okkar að nálgast ekki ókunnuga hunda þar sem við þekkjum ekki þeirra reynslu. Kennum börnunum að gefa ókunnugum hundum rými og frið, ásamt því að spyrja um leyfi til að klappa hundinum ef eigandinn er við hlið hans.

Hér er stiklað á stóru í þessum efnum en vonandi er þetta eitthvað sem getur aðstoðað aðra foreldra þarna úti sem vilja að börnin sín umgangist hunda á fallegan og jákvæðan hátt.

Birta Ýr Baldursdóttir, hundaatferlisfræðingur.

1 thought on “Hundar og börn

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s