Að vera einn heima

Það eina sem hvolpurinn þekkir áður en hann kemur inn á heimilið, er mamma sín og gotsystkini ásamt þeirri fjölskyldu sem hugsaði um þau þar sem hann fæddist. Það er ansi hart að ætlast til þess að hvolpur geti strax verið einn heima án þess að fá nokkra þjálfun í því. Þetta er eitthvað sem stundum gleymist því hundurinn “á bara að geta þetta”. Fullorðnir hundar hafa oft aldrei þurft að vera einir heima þar til aðstæður breytast og þá þarf líka að kenna þeim að það sé allt í lagi að vera skilinn eftir. Algengt er fyrir hunda sem hafa farið á mikið flakk um ævina að eiga við þetta vandamál að stríða.

Lítum á hvað er hægt að gera fyrir hundinn þegar það þarf að skilja hann eftir heima. Þessi listi er alls ekki tæmandi, heldur aðeins nokkur atriði sem hægt er að skoða og spá í. Best er að fá fagaðila til að aðstoða þig ef (helst áður en) þetta er orðið stórt vandamál. Hver hundur og hvert heimili er mismunandi með það hvað hentar hverju sinni.

 

Best er að byrja á því að verðlauna hundinn áður en hann fer að væla. Sem dæmi, ef þú ferð út og hann byrjar að væla eftir 3 mínútur, þá ferðu aftur inn eftir 2 mínútur og verðlaunar hann. Þetta þarf að gera nokkrum sinnum þannig að hann fatti að þú kemur alltaf aftur og hann fær verðlaun þegar hann vælir ekki. Ef hundurinn fer að væla þá veistu að hann er kominn yfir sinn þröskuld og þá er það orðið of langur tími fyrir hann.  Smám saman er hægt að lengja tímann en þetta tekur tíma. Þá eru hérna nokkur önnur atriði sem hjálpa líka við í þessu ferli.

Skoðum fyrst hvar hann á að vera. Viltu hafa hann í búri, með afmarkað svæði eða viltu að hann sé laus í allri íbúðinni? Mér finnst best að hafa hunda annað hvort í búri eða með afmarkað svæði því ef hundurinn er alveg laus, þá getur það stressað hundinn enn frekar því hann fer að verja allt svæðið. Þá fer hann líklegast að ganga fram og aftur um íbúðina til að passa hana í stað þess að slappa af. Fyrst þarf að gera staðinn, hvort sem það er búr eða afmarkað svæði, að góðum og afslappandi stað. Þá er hægt að draga fyrir glugga ef það er mikið áreiti fyrir utan og tengja staðinn við rólegheit, svefn og mat. Annað varðandi staðsetninguna er að athuga hvort hundurinn sjái útidyrahurðina, því það getur oft verið erfiðara fyrir hunda að sjá þig fara.

Síðan er gott að skoða hvað þú gerir sem kveikir á stressinu í hundinum. Þá meina ég að finna út hvað það er sem kemur hundinum til að væla ef það er það sem hann gerir einn heima, hvað kemur hegðuninni af stað. Oft getur það verið að klæða sig í skóna, grípa lyklana eða starta bílnum. Fyrir suma hunda getur það verið að fara inn í búr, sem getur gerst ef hundurinn er bara settur þangað þegar hann er skilinn eftir einn heima og þá þarf að aftengja það með því að hafa hann líka þar þegar heimilisfólkið er heima. Ef hegðunin byrjar t.d. um leið og þú klæðir þig í úlpuna, geturðu aftengt það við það að fara – með því að fara í úlpuna og setjast svo bara í sófann eða gera það sem þú varst að gera. Þá ertu að gera þetta ómerkilegt og ef þú gerir þetta nógu oft þá fattar hundurinn að þó þú farir í úlpuna þá ertu ekkert endilega að fara.

Hljóð geta líka skipt hunda miklu máli. Það getur hjálpað þeim gífurlega að hafa eitthvað hljóð í gangi sem er líka þegar fólk er heima við, t.d. útvarpið eða sjónvarpið. Ef þú ert t.d. oft með útvarpið í gangi þegar þú ert heima, geturðu líka kveikt á útvarpinu ca 15 mínútum áður en þú ferð og haft kveikt á því á meðan þú ert í burtu. Með þessu ertu að minnka líkurnar á því að hundurinn sitji og hlusti eftir hreyfingum á heimilinu og taki síður eftir því þegar þú ferð síðan. Einnig getur þetta hjálpað þeim hundum sem eru viðkvæmir fyrir umgangi í kringum húsið. Hér er líka gott að slökkva ekki á útvarpinu um leið og heim er komið, heldur bíða í ca 10-15 mínútur fyrst.

Eitt sem er einnig mikilvægt í þessu ferli er að láta hundinn hafa verkefni – eitthvað að gera á meðan hann er einn heima, t.d. hafa nagbein eða fyllt Kong (eða aðrar sambærilegar þrautir). Þetta verður að vera eitthvað sem er öruggt að leyfa hundinum að fá í einrúmi, sem krefst ekki eftirlits. Þá er hundurinn ekki að einbeita sér að því að hann sé einn, heldur er hann að leysa verkefnið og hugsar um það á meðan það endist. Það hjálpar einnig í að þreyta hundinn þannig að hann er þá líklegri til þess að hvíla sig líka.

Það er ósköp eðlilegt að vilja heilsa hundinum sínum þegar maður kemur heim eftir langan vinnudag og mjög eðlilegt að hundurinn vilji slíkt hið sama, en ef æsingurinn er rosalega mikill getur þetta ýtt undir það að hundinum finnist erfitt að vera einn heima. Það getur því verið gott að sleppa því að kveðja og heilsa, í rauninni láta sem ekkert sé og eins og þú sért bara að skreppa í næsta herbergi þegar þú ferð burt. Segja ekkert og ef hundurinn æsist þegar þú kemur heim, jafnvel þó þú látir sem ekkert sé, skaltu bíða þar til hann róar sig og heilsa honum þá á yfirvegaðan hátt. Þetta getur hjálpað hundinum að átta sig á að þú viljir frekar að hann sé rólegur og þá fær hann athyglina, heldur en að hann sé kannski hlaupandi um og jafnvel flaðrandi upp um þig í dyragættinni.

 

Eins og áður kemur fram er þetta ekki tæmandi listi og ekki víst að þessir hlutir eigi við hvaða hund sem er. Ef þú ert ekki viss hvað þú getur gert, er langbest að fá hundaþjálfara til liðs við sig og fá aðstoð.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s