Áttu von á barni? Hvað með voffa?

Það getur verið mjög erfitt fyrir hundana okkar þegar það bætist við í fjölskylduna lítið kríli sem tekur athyglina frá voffunum. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga til að undirbúa ferfætlinginn fyrir komu barns á heimilið

Ath að hver hundur er mismunandi og það er ekki víst að þinn hundur þurfi slíkan undirbúning.

1. Almenn hlýðni

Þjálfaðu hundinn nokkrum mánuðum áður en barnið kemur, í þeim atriðum sem geta hjálpað ykkur þegar barnið er komið. Ef þjálfunin byrjar á sama tíma og barnið kemur, setur það aukið álag á hundinn því að þá koma allar breytingarnar á sama tíma. Ef illa gengur í þjálfun getur það haft áhrif á það hvernig hundurinn lítur á barnið og getur jafnvel farið að tengja barnið við stress og brugðist illa við því. 

Hér eru nokkur dæmi um atriði sem gott er að skoða – þetta er ekki tæmandi listi heldur einungis dæmi og er mismunandi hvað hvert heimili þarf. Almennt er gott að skerpa á allri hlýðni og viðhalda henni til að koma í veg fyrir óhlýðni út af stressi þegar barnið er komið.

  • Að fara í bælið og hvíla sig þar í slökun. Þetta er í rauninni bíða skipun (sjá hér) gerð þannig að hægt sé að biðja hann um að fara “í bæli” og þá fer hann þangað, leggst niður og hvílir sig. Hann fær ekki að koma úr bælinu fyrr en ég gef leyfi með nafninu hans. 
  • Kjurrt”: Að taka ekki mat eða aðra spennandi hluti af gólfinu þó maður missi eitthvað á gólfið. Góð “kjurrt” skipun getur líka verið þannig að hundurinn sleppir því sem hann er búinn að setja í kjaftinn og bakkar frá hlutnum þannig að auðvelt er fyrir þig að taka þetta frá honum.
  • “Fara fram” getur verið mjög nytsamlegt ef þig vantar smá rými fyrir þig og nýja barnið. Þessi skipun skýrir sig sjálf – hundurinn á að fara fram og bíða þar.

2. Bannsvæði 

eru sniðug ef maður vill hafa slíkt – kenndu hundinum að hann má ekki koma inn á ákveðið svæði, t.d. barnaherbergið þar sem er fullt af dóti og spennandi hlutum á gólfinu. Þetta þarf að ítreka í hvert skipti sem hundurinn fer í herbergið og því mikilvægt að fylgjast vel með. Hægt er að nota barnahlið til öryggis en það er kannski ekki þægilegt ef foreldrar og barn eru oft á ferðinni yfir þröskuldinn. Ef hundurinn á erfitt með að læra það að hann má ekki fara þarna inn getur verið nytsamlegt að setja svart teip á þröskuldinn þannig að þröskuldurinn/mörkin eru greinilegri. Mikilvægt er að hundurinn hafi ekki greiðan aðgang í herbergið t.d. á meðan hann er einn heima eða eftirlitslaus. 

3. Dreifðu álaginu

Ekki bæta inn öllum barnahúsgögnum á sama tíma, stuttu áður en barnið kemur í heiminn. Vertu búin að koma fyrir flestum húsgögnum áður en barnið kemur og helst dreifa því yfir nokkra mánuði, eitt (eða lítið) í einu. Þá eru breytingar á heimilinu ekki yfirþyrmandi og álagið á hundinum (og jafnvel verðandi foreldrum líka) dreifist yfir lengri tíma. 

  • Tengdu æskilega hegðun við þessi nýju húsgögn, t.d. ef þú vilt ekki að hundurinn reyni að kíkja í vögguna eða leggist á leikteppið, sýndu honum það áður en barnið er komið. Kenndu honum hvernig þú vilt að hann umgangist þessa hluti, með því að leiðrétta hann og sýna honum hvað er æskilegt. 

4. Ný hljóð

Aðlagaðu hundinn við þau hljóð sem munu koma til með að fylgja barninu. Spilaðu myndbönd eða hljóðbrot af t.d. barnsgráti, barni að hlæja og slík hljóð sem heyrast þegar barnið er komið. Ef hundurinn stressast upp við það, lækkaðu þá í hljóðinu og truflaðu hann á meðan með t.d. nammi eða leik. Þannig ertu þá að tengja hljóðið við eitthvað jákvætt. Þegar hann er hættur að kippa sér upp við hljóðin á lágri stillingu geturðu smám saman farið að hækka og gert eins, alveg þar til hann hættir að spá í hljóðinu.

Jafnvel getur verið sniðugt að halda á dúkku eða bangsa líkt og að halda á barninu á meðan hljóðin eru spiluð. Ef ætlunin er að nota burðarpoka undir barnið er sniðugt að setja dúkkuna eða bangsann í svoleiðis og vera með á sér á meðan þú þjálfar hundinn. Hreyfingarnar okkar verða öðruvísi með barn framan á okkur og því getur verið gott að venja hundinn á aðeins öðruvísi líkamsbeitingu.

5. Ekki sama rútína og áður

Hafðu óreglu á göngutúrum og þjálfun. Þegar nýtt barn er komið á heimilið verður að öllum líkindum skekkja í rútínu, bæði á svefni, þjálfun hundsins og göngutúrum. Það getur verið mjög gott að fara á mismunandi tímum í göngutúr þannig að hundurinn sé ekki alltaf að bíða órólegur eftir göngunni sinni á sama tíma dags, heldur er göngutúrinn á óútreiknanlegum tímum. Annað sem er sniðugt að gera er að fá mismunandi aðila til að labba með hundinn, því það getur jú komið fyrir að heimilisfólkið er of upptekið til að geta sinnt hundinum eins vel og æskilegt er. Þá er gott að hundurinn sé vanur því að t.d. vinir og vandamenn fari með hann í göngutúr. Ef hundurinn er í þjálfun í taumgöngu eða er vanur ákveðinni tækni, vertu viss um að kenna þessum aðilum hvernig sú tækni er, þannig að hundinum finnist þetta ekki stressandi og ruglingslegt. Þetta á einnig við um aðra þjálfun ef það er eitthvað sérstakt sem þarf að viðhalda sem fjölskyldan hefur mögulega ekki tíma fyrir með lítið ungabarn. 

6. Smá “time-out” / pása frá barni eða öðru áreiti

Gott er að hundurinn geti verið rólegur í búri eða á sérstökum svæðum þar sem hann má vera en þarf jafnvel að vera einn, t.d. afgirt herbergi eða slíkt. Þetta er misjafnt eftir heimilinum en oft getur verið gott að fá smá pásu frá hundinum og geta þá sett hann í búr eða á þetta tiltekna svæði þar sem hann er þá rólegur og slaki á. Þetta gildir ekki bara í kringum barnið heldur líka ef þú finnur að hundurinn þarf pásu eins og t.d. ef það eru gestir og hundurinn er órólegur. Hann þarf að finna öryggi á þessum stað og gott er að gefa honum nagbein til að dunda sér við. Hér má líka nota bíða skipun en oft þarf að geta lokað hundinn af, þ.e. að þurfa ekki að spá í honum í smástund.

7. Þú ræður hvenær voffi fær athygli. 

Ef hundurinn þinn er með “athyglisleitandi” takta, þ.e. eitthvað sem hann gerir þegar hann vill fá athygli – þá er gott að venja hann af slíkri hegðun með því að hunsa hegðunina eða þá að fá hann til að bíða í bæli til þess að róa hugann. Ekki standa upp og fara að leika við hann ef hann biður svona um athygli því það er eitthvað sem er ekki endilega hægt þegar barnið er komið.

Önnur atriði sem gott er að hafa í huga

Eitt sem er svo sniðugt að gera þegar barnið er komið í heiminn og er væntanlegt heim til sín, er að fara fyrst heim með flík sem barnið hefur verið í. Gott er að leyfa hundinum að þefa af flíkinni og hafa flíkina t.d. í vöggu eða rimlarúminu. Hundurinn ætti að venjast lyktinni og verður því auðveldara fyrir hann þegar barnið kemur síðan stuttu seinna á heimilið. 

Annað sem gott er að muna eftir er að heilsa hundinum eins og venjulega þegar þú kemur heim með barnið. Sniðugt er að maki eða annar sem getur aðstoðað, sé með barnið á meðan þú heilsar hundinum þínum og svo geturðu farið með barnið inn.

Ég tel það best að hver hundaeigandi meti sinn hund og finni það sjálfur hvort hann vilji að hundurinn fái að heilsa barninu strax eða hvort hundurinn eigi að virða barnið og ykkur með því að gefa barninu (og þér ef þú heldur á barninu) gott pláss. Þetta fer alveg eftir hundinum og ég tel enga leið vera réttari en aðra þegar það kemur að þessu.

Þegar barnið er nýkomið og allir eru að aðlagast nýju lífi eru bæði foreldrar, barn og hundur að aðlagast breyttum tímum. Á þessum aðlögunartíma tengir hundurinn allt saman, annað hvort á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Ekki skamma hann eða ávíta í návist barnsins því hann gæti tengt skammirnar við barnið. Hafðu alla þjálfun og öll samskipti við hundinn jákvæð (helst alltaf en sérstaklega í kringum barnið) til þess að hundurinn tengist barninu jákvæðum böndum.

Munum að verðlauna voffa þegar hann stendur sig vel – ekki bara banna honum heldur þarf hann að vita líka hvað er æskileg hegðun! 

Pössum okkur að gleyma ekki ferfætlingunum okkar þegar nýtt og spennandi kríli mætir á svæðið. Ef við finnum að við höfum ekki tíma fyrir þá, fáum hjálp og pössum að þeir fái það sem þeir þurfa, t.d. næg hreyfing, andleg örvun, þjálfun og athygli daglega.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s