Ertu að hugsa um að fá þér hund?

Það er margt sem þarf að huga að þegar hundur kemur á heimilið enda er það mikil ábyrgð. Hundur er skuldbinding til margra ára og því verður að hugsa sig vel um áður en ákvörðunin er tekin. 

Allir hundar eru fallegir, krúttlegir og æðislegir í alla staði. En þeir eru líka mikil vinna, kosta peninga og tíma sem því miður of margir gera sér ekki grein fyrir. Hér eru lykilspurningar sem gott er að spyrja sig að, áður en lokaákvörðun er tekin. 

– Er örugglega tími fyrir þá hreyfingu sem hundurinn þarfnast? 
Áður en þú færð hundinn á heimilið skaltu athuga hvort það sé tími til þess að sinna þeirri hreyfingu sem hundurinn þarf á að halda. Hver hundur er misjafn eins og við mannfólkið en tegund hundsins getur sagt þér til um það hversu mikilli hreyfingu má reikna með. Skoðaðu orkustig fjölskyldunnar þinnar og veldu þér hund sem passar við ykkur. Sumir hundar þurfa klukkutíma göngutúr á dag og stundum meira eða minna en það. Vertu viss um að það sé alltaf einhver sem er tilbúinn til að fara út með hundinn ef þú getur það ekki sjálf/ur. 

– Er möguleiki hjá heimilisfólki að sinna þörf hundsins út frá tegund eða eðli? 
Hér er átt við það ef hundurinn er t.d. af sleðahundategund, hvort heimilisfólkið hafi tök á því að vinna með það eðli og leyfa hundinum að draga. Þannig mætir fjölskyldan þörfum hundsins og hundinum líður betur heima við. Sumir hundar eru góðir sporhundar og því mætti gera þefæfingar með hundinum inn á milli. Þessi tegundatengda þörf hundsins kemur ekki í stað almennrar hreyfingar þar sem almenn hreyfing er ein af grunnþörfum hundsins.

– Er til staðar næg þekking og áhugi til að sinna þjálfun hundsins?
Það er ekki nóg að velja sér sætan hvolp og vona að hann verði þægur. Hundar eru alveg eins og börn með það að þeir þurfa einhvern til að leiðbeina sér með hvað er rétt og hvað er rangt. Ekki búast við því að hundurinn læri strax á fyrsta degi hvernig á að hegða sér, þú þarft því að vera tilbúinn til þess að sýna honum það rétta og gefa þér nægan tíma í það. Þjálfun hunda er daglegt verkefni, ekki endilega eins og á hverjum degi en alltaf er eitthvað. Yfirleitt eru það hversdagslegir hlutir, eins og að bíða með að borða þangað til eigandi gefur leyfi, eða gera þarfir sínar úti við.

-Ertu í öruggu húsnæði? 
Það eru allt of margir sem lenda í þeim aðstæðum að þurfa að finna nýtt heimili fyrir hundinn sinn vegna þess að hundar eru ekki leyfðir í nýju íbúðinni. Til að koma í veg fyrir það er langbest að vera í eigin húsnæði ef það er í boði. Einnig er mikilvægt að ef þú býrð í fjölbýlishúsi, að fá samþykki annarra íbúa vegna hundsins ef það á við, áður en hundurinn kemur. Það er ekkert leiðinlegra heldur en að vera kominn með nýjan hund og svo fæst ekki samþykki fyrir honum. 

-Er fjárhagurinn nógu góður til að fá bæta við hundi á heimilið?
Það kostar alltaf að kaupa hundamat, fara til dýralæknis og kaupa alls kyns vörur fyrir hundinn sinn. Það þarf að kaupa búr, tauma, beisli, dalla og dót, svo eitthvað sé nefnt. Einnig þarf að tryggja hundinn sinn og fara á hundanámskeið, sem oft getur kostað sitt. Kostnaðurinn er mishár og fer eftir hundinum, hvort hann sé heilsuhraustur eða oft veikur, lítill eða stór. 

-Er einhver til staðar ef hundurinn þarf pössun?
Ef heimilisfólkið ákveður að skella sér í utanlandsferð í 10 daga, er einhver til staðar fyrir ykkur sem er tilbúinn til að passa hundinn? Það er alltaf rosalega þægilegt að þekkja einhvern sem getur verið með hundinn og þá helst á ykkar heimili ef þær aðstæður koma upp að eigendur eru ekki til staðar. Oft getur þetta gerst óvænt, til dæmis geta komið upp alvarleg veikindi og þá þarf að finna pössun. Það er mjög gott að skoða þetta, spyrja fjölskyldumeðlimi og vini hvort þau séu tilbúin til að passa ef til þess kemur. Það er miklu erfiðara að fá pössun fyrir ferfætlingana heldur en börnin. 

-Ertu sjálf/ur tilbúin/n til þess að vera fyrirmynd og leiðtogi hvolpsins? 
Allir hundaeigendur þurfa að vera tilbúnir til þess að vera leiðtogi eða leiðbeinandi hvolpsins til að sýna honum réttu leiðina í þjálfun. Best er að hundaeigandi haldi opnum huga hvað varðar sjálfan sig og hugi að yfirvegun í daglegu lífi til að þjálfunin gangi sem best. Fyrirmyndin þarf einnig að hugsa um það hvaða reglur henti á heimilinu og að allir aðrir á heimilinu framfylgi þessum reglum. 

Þetta er ekki tæmandi listi yfir þau atriði sem þarf að huga að þegar verið er að hugsa um þessa stóru ákvörðun, að bæta við hundi á heimilið. Gott er að spyrja aðra hundaeigendur hvað þeim finnst vera mikilvægt að skoða hvað þessa ákvörðun varðar og fá fleiri álit. Ef þú ert ekki viss hvort þú sért tilbúin/n í hundaeign, er líka sniðugt að prófa að passa hund sem þú þekkir í nokkra daga. Þá fær maður betri hugmynd um hversu mikil vinna það er að eiga hund. Einnig er það sniðugt ef þú ert að spá í ákveðinni tegund, að passa hund af þeirri tegund til að sjá hvort tegundin henti.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s