Innkall

Það er alltaf gott að eiga hund sem hlýðir innkalli, sérstaklega ef maður lendir í því að hundurinn sleppur óvart út eða týnist. Hér eru nokkrar leiðir til að æfa innkallið með voffanum þínum. 

Innkallið lærist með æfingu og endurtekningu, líkt og aðrar skipanir og hegðanir. Því er alltaf gott að grípa í stuttar æfingar þegar tækifæri gefst. Kíkjum á nokkrar skemmtilegar æfingar sem hægt er að gera með hundinum bæði inni og úti til að styrkja innkallið. 

Fyrsta skrefið í að kenna hundi innkall er í raun mjög einfalt – kalla á hann inni og verðlauna þegar hann kemur. Verðlaunin þurfa ekki endilega að vera nammi heldur geta þau verið klapp eða hrós í orðum. Ef þið eruð mörg á heimili er hægt að búa til leik með því að skiptast á að kalla, verðlauna þegar hundurinn kemur og hafa gaman. Þetta er þrælsniðugt með unga hvolpa því að þeir eru yfirleitt hrifnir af því að leika sér. Það þarf þá bara að passa það að leikurinn standi stutt þannig að hundurinn verði ekki of þreyttur eða missi áhugann, við viljum helst alltaf enda þjálfun í góðu þannig að hundurinn hætti í hrósi og líður vel með sjálfan sig. Það er líka hægt að gera þessa æfingu úti við á afgirtu svæði, t.d. í garðinum.

Annað sem hægt er að gera er að hafa hundinn úti og bundinn í löngu bandi, eða innkallstaumi eins og það er oft kallað. Leyfa hundinum að skoða sig um og helst gleyma sér aðeins í að skoða eitthvað. Svo er kallað á hann og hundurinn fær verðlaun þegar hann kemur. Ef hann hlýðir ekki og heldur áfram að skoða eitthvað, prófaðu þá aftur og notaðu tauminn í leiðinni. Settu pressu á tauminn þegar þú kallar á hann þannig að hann fatti hvað þú vilt, verðlauna svo þegar hann kemur. Ef það gengur ekki þarftu að taka skref aftur á bak og hafa minna svæði á milli þín og hundsins, prófa svo aftur. 

Síðan eru margar hlýðniæfingar sem styrkja innkall. Hér er miðað við að innkallsorðið sem notað er, sé nafn hundsins, eða þá að nota orð sem væri hægt að nota í þessum skipunum líka. Helsta skipunin sem styrkir innkall er bíða skipun, þar sem hundurinn á að bíða t.d. í bælinu sínu þangað til honum er hleypt úr skipun með nafninu sínu. Einnig er hægt að kenna hundinum “auto-sit” eða kenna honum að setjast niður þegar þú stoppar í göngutúr. Það er mjög sniðugt t.d. þegar stoppað er á rauðu ljósi eða þegar þú vilt stoppa og spjalla við einhvern. Þá á hann í rauninni að sitja kyrr þar til honum er hleypt úr skipun með nafninu sínu eða því orði sem þú velur að nota. Þegar hundurinn fer að hlusta betur eftir nafninu sínu styrkir það innkallið því þá hlustar hann betur á þig þegar þú notar í innkallinu. Þetta á líka við það ef þú notar annað orð – þá þarf það bara að vera sama orðið í þessum æfingum eins og í innkallinu sjálfu. 

Mundu að æfingin skapar meistarann – bæði hjá þér og hundinum. Finndu út hvaða leið hentar þínum hundi og æfið ykkur saman.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s