Bíða

Bíða skipun er það þegar hundurinn er settur á vissan stað, þar sem hann á að vera þar til hann heyrir nafnið sitt. Best er að hann leggist niður til að auðvelda slökun. Helst er þessi staður bæli eða búr, þar sem hann fær að vera í friði og getur slakað á. Honum er ekki hleypt úr skipuninni eða leyft að fara frá þessum tiltekna stað fyrr en nafn hans er sagt (eða annað orð sem eigandinn velur). Við það að nota nafnið hans fer hundurinn að hlusta bara eftir nafninu sínu sem auðveldar slökun því þá er hann ekki að hlusta eftir neinu öðru. Það má líka kalla skipunina “kyrr”, eða “bæli” en við notum “bíða”. Hver eigandi finnur hvað hentar sér best.

Þegar æfingin er æfð í fyrsta skiptið er lykilatriði að láta hundinn bíða örstutt, segja svo nafnið til að bjóða honum að koma og verðlauna. Síðan er smám saman lengdur tíminn sem hann á að bíða og hundurinn verðlaunaður þegar vel gengur. Ef hundurinn brýtur skipun, þ.e. fer af staðnum án þess að honum er hleypt úr skipuninni með nafni, þá þarf einfaldlega að segja nei og leiða hann aftur í bíða skipun. Helst viljum við enda æfinguna með því að hundurinn sofnar en ekki búast við því að það takist strax í fyrstu tilraun. Hann þarf fyrst að fatta út á hvað þetta gengur og síðan er hægt að æfa þetta þannig að hann endar í slökun. Fyrir mjög stressaða hunda er þetta ekki hægt í fyrstu tilraunum og getur tekið langan tíma fyrir þannig hunda að róa sig niður og geta beðið í slökun. Þegar hundurinn getur beðið í langan tíma er bætt við fjarlægð og áreiti. Fjarlægð er þá að þú myndir fara úr herberginu og koma aftur, lengja svo tímann sem hundurinn sér þig ekki. Áreiti er til dæmis að láta bolta rúlla framhjá, láta mat detta á gólfið, hoppa og skrækja til að búa til eitthvað spennandi sem hundurinn myndi venjulega bregðast við. Þar kemur sjálfsstjórnin inn í þetta sem getur síðan hjálpað í að kenna kjurrt skipun, ef hundurinn er til dæmis alltaf að stela öllum mat sem dettur á gólfið.

Þessi skipun getur hjálpað með aðskilnaðarkvíða, stress þegar gestir koma, óöryggi í vissum aðstæðum og margt fleira. Innkallið getur batnað til muna þar sem við hleypum hundinum úr skipuninni með nafninu (eða ákveðnu orði) þannig að hann hlustar þá betur eftir því. Þess vegna getur verið gott að nota nafnið eða sama orð og þú myndir nota ef þú værir að kalla á hann úti við. Þegar gestir koma er mjög þægilegt að senda hundinn í bíða skipun á staðinn sinn og hann má þá ekki koma að heilsa gestunum fyrr en þú leyfir. Þetta er líka rosa hentugt ef þú færð einstakling heim til þín sem er óöruggur eða hræddur við hunda, eða ef þú ferð með hundinn í heimsókn eitthvert og vilt að hann sé rólegur og slaki á. Þá er hægt að nota handklæði, peysu eða hvað sem er til að láta hundinn liggja á og bíða. Bíða skipun er líka mjög flott fyrir hunda sem eru t.d. óöruggir í kringum börn, þá er gott að æfa bíða skipun með börn í kring til að sýna honum að þau gera ekkert. Þá þarf líka að kenna börnunum að leyfa voffa að vera í friði þegar hann er á þessum tiltekna stað, þannig að hundinum líði ekki illa í bíða skipuninni.

Hvað varðar aðskilnaðarkvíðann er þetta góð æfing fyrir hundinn að vera ekki með þér. Þá er æfingin æfð með fjarlægð og tíma, t.d. hversu lengi getur hundurinn verið að bíða á meðan þú ert í næsta herbergi. Þá lærir hann að slaka á þó að þú sért ekki nálægt. Ef þú átt hund sem er “límmiði”, sem vill stöðugt vera hjá þér þannig að honum líður illa án þín, þá er þetta rosalega góð æfing.

Bæði hundurinn og eigandinn græðir heilmikið á því að kenna voffa þessa skipun því það getur einfaldað heimilislífið til muna. Til dæmis gæti verið hentugt að láta hundinn bíða í bælinu sínu á meðan heimilisfólkið borðar kvöldverð til að koma í veg fyrir að voffi sé að sníkja. Munum að vera þolinmóð við hundinn okkar og einbeita okkur að því að leiðbeina þeim í rétta átt og verðlauna þegar vel gengur. Sleppum allri neikvæðni og skömmum og höfum þjálfunina jákvæða. Skiljum stressið eftir annars staðar og njótum þess að þjálfa hundinn okkar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s