Reglur

Ég fann það strax þegar ég fékk Vin heim til mín að það skiptir hann miklu máli að hafa reglur sem farið er eftir. Reglur gera hundum svo margt gott ef þeim er fylgt eftir af öllum fjölskyldumeðlimum og engar undantekningar gerðar. 

Þegar hér er rætt um reglur á heimilinu er átt við almennar umgengnisreglur fyrir hundinn. Að mörgu leyti svipar þeim til þeirra reglna sem börnum er gefið heima við. Þessar reglur eru til dæmis að hundurinn megi ekki fara upp í rúm/sófa og ekki betla við matarborðið. Hvert heimili er með sínar reglur en mikilvægast er að allir séu sammála um reglurnar og allir fylgi þeim eftir. Um leið og gerð er endurtekning á reglunum þarf í raun að byrja aftur á því að kenna reglurnar. Sem dæmi gerði ég það strax fyrsta daginn sem Vinur kom til okkar að hafa þá reglu að hann megi ekki vera fyrir mér þegar ég er að elda. Ég er með mjög lítið eldhús og nenni engan veginn að vera sífellt hrasandi um hundinn, einnig vildi ég ekki koma honum í hættu með því að það skvettist á hann af heitri pönnunni eða með því að stíga á hann. Þannig að ég setti honum þá eina reglu strax þegar ég eldaði fyrst eftir að hann kom til okkar. Ég sagði honum hvar hann mátti vera með því að einfaldlega biðja hann um að vera þar, sitja og bíða. Ef hann færði sig á stað þar sem hann var fyrir mér, gerði ég þetta aftur. Svo þegar hann stóð sig vel fékk hann verðlaun sem ég var með við höndina. Þetta svínvirkar og í dag er nóg fyrir mig að benda á staðinn hans eða segja “farðu frá” og þá færir hann sig á sinn stað. Oftar en ekki fer hann bara sjálfur á þennan stað án þess að ég segi nokkuð, sem gerir lífið auðveldara fyrir okkur bæði. 

Það er mikilvægt að allir fjölskyldumeðlimir geri það sama þannig að reglan er fljótari að síast inn í huga hundsins. Best er að allir á heimilinu ákveði reglurnar í sameiningu áður en voffi kemur á heimilið því þá er hann svo fljótur að læra þær. Ekki hafa áhyggjur þó að slíkt hafi ekki orðið hjá þér, því það er svo sannarlega hægt að kenna gömlum hundi að sitja! Það er allt í lagi að setja nýjar reglur, mundu bara að hafa þolinmæðina að vopni og taka þinn tíma í að kenna hundinum reglurnar. 

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta vera mikilvægt, er að þetta getur róar hunda niður. Hundar sem hafa engar reglur á heimilinu og gera það sem þeir vilja, eru oftar en ekki óhlýðnari heldur en þeir sem kunna sínar reglur og fylgja þeim. Stressaðir eða óöruggir hundar verða rólegri þegar þeir hafa reglu í lífinu. Þetta þarf ekki að vera nema kannski ein regla eða tvær. Einnig styrkir það sambandið milli eiganda og hunds, því að ef eigandinn er staðfastur með reglur og sér til þess að hundurinn fylgi þeim, eykst virðing hundsins gagnvart eigandanum. Munum þó að það að framfylgja reglu þýðir ekki að neyða hundinn til þess að gera eitthvað, heldur að sýna honum á jákvæðan hátt hvað við viljum. Það er ekki nóg að segja nei og ætlast til að hundurinn skilji okkur. 

Dæmi um vinsælar reglur eru: 

Ekki byrja að borða matinn fyrr en leyfi er gefið

Ekki betla við matarborðið

Ekki fara upp í sófa, rúm eða önnur húsgögn

Ekki æða út um útidyrahurðina þó hún sé opin

Ekki borða mat þó hann detti á gólfið

Skoðum hvernig okkar reglur eru á okkar heimili og sjáum hvort þetta séu fyrirfram ákveðnar reglur – var þeim skipt út eða hafa þær haldist eins á þeim tíma sem hundurinn hefur dvalið á heimilinu? Oft getur verið erfitt að banna litlum krúttlegum hvolpum t.d. að kúra upp í sófa, en munum að hvolpurinn stækkar hratt. Með reglum og góðu uppeldi getum við skapað æðislegan félaga til margra ára og fyrirbyggt ýmis vandræði.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s